Sjálfboðaliðar sem unnu þrekvirki
Fréttatilkynning samtakanna frá 6. desember: Í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans (5. desember) vilja Hagsmunasamtök heimilanna þakka fyrir og vekja athygli á starfi sjálfboðaliða á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna eftir hrun. Eftir gjaldþrot bankanna 2008 og þegar stofnanir samfélagsins brugðust stigu sjálfboðaliðar í stjórn og aðrir velunnarar samtakanna inn í neyðina og veittu stuðning.
Starf þeirra var umfangsmikið og í raun þrekvirki í mikilli neyð fólks í mörg ár.
Hagsmunasamtök heimilanna eru þekkt fyrir þátttöku sína í opinberri umræðu um ýmis hagsmunamál heimilanna í hruninu. Það sem minna eða jafnvel lítið sem ekkert hefur verið fjallað um, er stuðningur og aðstoð samtakanna við heimili og fjölskyldur sem stóðu varnarlaus gagnvart ofurvaldi ríkisins og fjármálafyrirtækja. Lengi vel var sú vinna eingöngu innt að hendi af sjálfboðaliðum í stjórn samtakanna. Síðar tók starfsmaður þeirra við lögfræðilegri aðstoð og þjónustu við félagsmenn. Það er staðreynd að fjölmörg heimili glíma enn við langtíma afleiðingar gjaldþrota bankanna sem ekki hefur verið fjallað nægilega vel um á opinberum vettvangi.
Stofnanir brugðust í efnahagshruninu, (sjá nánar).
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Stofnanir brugðust í hruninu
Það er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna, að öll heimili eigi rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri lögfræðiráðgjöf og réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Afstaða samtakanna byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu og langvarandi áhrifum gjaldþrota bankanna 2008 á lífsskilyrði félagsmanna og annarra sem til samtakanna hafa leitað.
Fólk var varnarlaust
Á árunum eftir hrun var eignarréttur fólks lítilsvirtur og fjölskyldur sem neyddust til að selja heimili sín festust í kjölfarið á ómannvænum leigumarkaði til langs tíma, án lánstrausts. Þetta fólk hafði þó ekkert rangt gert. Lán stökkbreyttust eftir gjaldþrot bankanna og hækkun greiðslubyrðar var mörgum ofviða en það sem meira var, bankarnir og lánastofnanir beittu ófyrirséðri hörku við innheimtu lána og gjaldfellingu þeirra. Stjórnkerfið og stofnanir eins og Alþingi og Umboðsmaður skuldara brugðust þessum fjölskyldum. Þrátt fyrir að lánveitendum væri skylt að gera upp eftir nauðungarsölur miðað við fullt markaðsverð fasteigna kröfðu þeir lántakendur engu að síður um meintar eftirstöðvar lána og skráðu fólk á vanskilaskrá til margra ára. Fólk var varnarlaust. Óteljandi álitamál fóru í gegnum dómskerfið og kærunefndir, með takmörkuðum árangri fyrir lántakendur og eini raunverulegi stuðningurinn var á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna. Langvinn áhrif hrunsins á lífsskilyrði stórs hóps félagsmanna hafa hvorki verið viðurkennd né rannsökuð. Enn leita félagsmenn í ráðgjöf til að leysa úr þessum langtímavanda, þó mikið vatn hafi runnið til sjávar.