Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Af hverju rannsóknarskýrsla heimilanna?

Af hverju rannsóknarskýrsla heimilanna?

Það að gerð verði rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrif þeirra á heimilin, hefur verið annað af helstu baráttumálum Hagsmunasamtaka heimilanna sl. tvö ár. 

Það er ekki ætlun okkar að gera lítið úr þeim vanda sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir í kjölfar hrunsins, en lausn þeirra má aldrei brjóta á lög- og stjórnarskrárvörðum réttindum almennings. Um þetta ætti ekki að þurfa að ræða en engu að síður þá stendur deilan um hvort þannig aðgerðir hafi verið réttlætanlegar.

Það voru sem betur fer ekki allir landsmenn sem urðu fyrir barðinu á þessum aðgerðum og lögbrotum stjórnvalda, en það voru engu að síður um 15% landsmanna, a.m.k.  50.000 – 60.000 einstaklingar. Þetta fólk á skýlausan rétt á rannsókn og uppreist æru.

Það er einnig nauðsynlegt að rannsaka hvernig það gat gerst, í vestrænu þjóðfélagi á 21. öldinni, að ráðherrar, alþingismenn, embættismenn og dómarar, “sættu sig við” að brotið væri á grundvallarréttindum landsmanna með þeim hætti sem gert var.

Brotin sem framin voru á tugþúsundum gerðust ekki “óvart” eða í einhverju tómi, og þau hefðu aldrei getað gengið jafn langt og raun ber vitni án skipulagningar, undirbúnings og eftirfylgni, sem hefur náð í gegnum allt stjórnkerfið og upp í dómskerfið.

Verði þetta ekki rannsakað og gert upp, þá mun þetta gerast aftur í einhverri mynd í “næsta hruni”, hvenær sem það verður. Við verðum, okkar allra vegna, að koma í veg fyrir það með öllum ráðum.

Tölurnar tala sínu máli. Það getur ekki talist eðlilegt í 360.000 manna þjóðfélagi að a.m.k. 15.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í hendur bankanna, sem hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum allt frá hruni. 

Það er heldur ekkert eðlilegt við það í þessu “litla” landi að gerð hafi verið 164.000 fjárnám frá hruni, þar af 127.000 árangurslaus. 

Það liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir einstaklingar eru á bakvið þessa skelfilegu tölu, en þeir eru örugglega ekki færri en 30.000. Alveg eins og meðaltali er beitt til að mæla lækkun skulda heimilanna og sýna fram á hvað við höfum það öll gott, hlýtur að mega beita meðaltali hér og samkvæmt því hefur annar hver íslendingur lent í árangurslausu fjárnámi frá hruni, eða helmingur landsmanna.

Maður skyldi ætla að með svo hrikalega tölfræði í farteskinu sé ljóst að aðgerða sé þörf og að að eitthvað hafi illilega misfarist í aðgerðum stjórnvalda eftir hrun, en samt er þráast við.

Traust er dýrmætt og það er áunnið. Stofnanir og embætti ríkisins þurfa að endurheimta glatað traust almennings, til að geta leitt þessa þjóð til framtíðar.

Traust vinnst ekki með yfirhylmingum og feluleikjum og það mun aldrei verða endurheimt fyrr en þessi mál eru tekin undan borðinu og skoðuð af til þess bærum aðilum. 

Lesa enn nánar hér.

Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna! 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum