Aðgerðir og aðgerðaleysi gagnvart verðbólgu
Umsögn til Alþingis
Hagsmunasamtaka heimilanna hafa sent frá sér umsögn við frumvarp ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir í verðbólgu. Með frumvarpinu leggur ríkisstjórnin til að bætur almannatrygginga hækki um 3% og húsnæðisbætur um 10%, auk þess að greiddur verði sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Frumvarpið verður lagt fram í mánuðinum og með samþykki þingsins taka þessar hækkanir gildi 1. júní.
Fulltrúar samtakanna voru kölluð til samráðs á fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, með fulltrúum Öryrkjabandalagsins og Leigjendasamtökunum.
Hagsmunasamtök heimilanna eru fylgjandi þessum mótvægisaðgerðum en vöktu sérstaka athygli á því í umsögn sinni og á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að engar aðgerðir hafa verið kynntar af hálfu ríkisstjórnarinnar sem gagnast útivinnandi fólki í eigin húsnæði.
Verðtryggð lán eru aldrei hagstæð
Í desembermánuði sendu samtökin frá sér aðvörun til neytenda vegna aðgerða og yfirlýsinga Íslandsbanka um verðtryggð lán. Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna varaði við áróðursherferð bankans í Reykjavík síðdegis, þar sem fjallað er um verðtryggð lán sem samkeppnishæfan valkost við óverðtryggð lán eftir lækkun vaxta. Samtökin fordæma yfirlýsingar sem eru til þess fallnar að blekkja neytendur, því verðtryggð lán eru aldrei hagstæðari valkostur í samanburði við óverðtryggð lán. Verðtryggð lán eru einfaldlega aldrei hagstæð. Þau fordæma ekki síður umfjöllun í Viðskiptablaðinu um hlýjan faðm verðtryggingarinnar frá 12. desember, þar sem gefið er í skyn að verðtrygging lána gefi heimilum öryggi sem hægt sé að líkja við hlýjan faðm. Samlíkingin er liður í áróðursherferð bankans.
Hér geta félagsmenn og aðrir hlustað á viðtal við formann HH í Reykjavík síðdegis:
Hagsmunasamtök heimilanna fordæma boð banka í hlýjan faðm verðtryggingarinnar
Fréttatilkynning samtakanna frá 15. desember, 2021:
Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka
Umfjöllun í Viðskiptablaðinu um verðtryggð lán:
Hlýr faðmur verðtryggingarinnar
Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka
Fréttatilkynning 15. desember 2021
Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju. Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni. Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim.
Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.