Saga Margrétar og Marteins

Heil og sæl

Hér er saga af venjulegu heimili á Íslandi í dag. Við erum kjarnafjölskylda, pabbi, mamma, tvö börn og hundur. Við búum í fjögurra herbergja íbúð í blokk og höfum búið í sömu íbúðinni í 10 ár. Í apríl í fyrra missti húsbóndinn vinnuna, hann var með þriggja mánaða uppsagnarfrest + sumarfrí.

 Hann fékk vinnu aftur í september, veiktist svo mjög alvarlega í lok september og átti auðvitað engin réttindi á nýjum vinnustað. Því fór sem fór og hann missti vinnuna sem hann var ný búinn að fá.  Næstu mánuði á eftir þurftum við að treysta á sjúkrasjóð VR auk minna tekna.  Í febrúar fékk hann aftur vinnu en þá höfðum við haft skertar tekjur frá því í ágúst og fjárhagsstaðan fór sífellt versnandi því við vorum auðvitað komin með „hala“ af vanskilum. 

Á þessu tímabil varð hrunið. Gengistryggða bílalánið okkar hækkaði og hækkaði og verðbólgan hækkaði verðtryggðu lánin okkar. Launin okkar hins vegar lækkuðu.  Við fórum af stað að reyna að skuldbreyta. Þurftum m.a. að skuldbreyta  láni sem við tókum árið 2001 og var þá að upphæð 2.000.000kr. Af þessu láni vorum við búin að borga samviskusamlega í 7 ár, engu að síður var höfuðstóll lánsins við skuldbreytingu 2.700.000 kr. Gengistryggða lánið okkar hefur hækkað um helming og við eigum ekki lengur 60% í bílnum.

Við tókum strax þá ákvörðun að taka á þessum málum með jákvæðni og bjartsýni. Jafnvel þó halinn lengdist og afborganirnar hækkuðu þá vorum við ákveðin í því að láta ekki bugast. Við treystum á það sem var sagt í upphafi hruns, tilmæli til bankanna um að taka vægar á skuldurum.  Okkur gengur sífellt verr að vera jákvæð og bjartsýn og í síðustu viku töluðum við við þjónustufulltrúann í okkar viðskiptabanka og báðum hreinlega um neyðaraðstoð. Svarið var stutt og laggott; við getum ekki lánað neitt, við höfum engar lausnir!

Ríkið á alla bankana. Það eru ríkisbankarnir sem ganga að skuldurum og ég hef enga trú á að við séum ein í þessari stöðu. Það eru 18.000 manns atvinnulaus, það eru 18.000 manns sem geta ekki staðið í skilum. Hvar er skjaldborgin? Hvar eru lausnirnar? Hvernig ætlar ríkið að koma til móts við fólkið? Hvenær ætla yfirvöld að koma út úr loftkastalanum og taka á málunum.  Hvernig á fólk að geta borgað?

Með kveðju,

Margrét og Marteinn


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum