Saga Sigurðar af viðskiptum við Kaupþing

Lítil en sönn saga af innheimtuaðferðum Kaupþings eftir að ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum til ríkisbankanna að milda innheimtuaðgerðir og koma til móts við heimilinn í landinu.

Ég er einn af þeim sem keypti mér húsnæði fyrir rúmu ári síðan.  Viðskiptabanki minn fjármagnaði að mestum hluta það sem þurfti til að ég gæti gert það, en samt vantaði upp á um 1 milljón kr. til að seljandi fengi sitt.  Talaði ég þá við Kaupþing sem lánaði mér 990 þúsund til að klára kaupinn.  Til að byrja með gekk allt vel en síðan veikist ég og þarf að vera frá vinnu í 7 mánuði á sjúkrabótum.  Hef engu að síður, hingað til, náð að standa í skilum að mestu og þó ég hafi ekki alltaf getað borgað af láninu á gjalddaga þá fór það ekki í innheimtu þar sem ég lagði mikið kapp á að borga af því.

Nú víkur sögunni að þeim tíma er allt hrundi hér á landi.  Ég reyndi að borga en tókst ekki betur en svo að ég misti lánið frá Kaupþingi í lögfræðideild þeirra.

Þar sem minn viðskiptabanki er annar fór ég og talaði við starfsmenn þar á bæ um hvað væri hægt að gera í stöðunni þar sem erfiðlega gekk að borga af rúmlega 20 milljóna láni mínu þar.

Sá banki vildi allt fyrir mig gera og gerði plan um skuldbreytingar og frystingu, en þar sem minn banki er með fyrsta og þriðja veðrétt en Kaupþing með annan veðrétt þurfti ég að fara og fá samþykki Kaupþings fyrir þessum breytingum. Hefst þá sagan af ferð minni í lögfræðideild Kaupþings.  Þegar ég kom þangað um tvö að degi til kom ég að læstri hurð þar sem tvær bjöllur voru.  Önnur þeirra var merkt „PÓSTUR“ og neðri bjallan „AFGREIÐSLA“.

Nú var úr vöndu að ráða, ég var nefnilega með bréf í höndunum undirritað af ákveðnum lögmanni, þannig að ég var ekki viss um hvora bjölluna ég ætti að velja ;) Þar sem ég var með erindi við þennan tiltekna lögmann þá valdi ég bjölluna sem á stóð afgreiðsla.  Eftir smá bið kom kona sem opnaði litla rifu á dyrunum og sagði (ekki með þjónstulundaðri röddu): „Hvað?“  Brá mér heldur við svona móttöku en stundi samt upp að ég væri með innheimtubréf undirritað af Guðrúnu Jónsdóttur.  Konan sem mér virtist frekar pirruð svaraði: Hún er ekki við og verður ekki við þessa viku“.
Ég sagðist þá vera að koma frá viðskiptabanka mínum og yrði að fá að tala við lögfræðing.  Konan sem mér viristi ekki afpirrast við þessi tíðindi bauð mér þá inn í lítið herbergi sem varla var stærra en skápur.  Settist ég þar í stól en konan stóð í dyrunum og kallaði fram á ganginn: „Æi Kalli, nennir þú að tala við hann?“ Eftir stutta stund kom ungur lögfræðingur sem settist á móti mér og bar ég upp erindi mitt.  Hafði hann mestan áhuga á að vita hvort ég væri borgunarmaður fyrir þessu og sagði ég honum nokkrum sinnum í þessu viðtali okkar að viðskiptabanki minn væri reiðubúinn að frysta og skuldbreyta rúmlega 20 milljónum og það væri bankinn ekki að gera nema hann teldi mig borgunarmann fyrir þessu. Ekki fannst þessum manni ég merkilegur pappír og sýndi það mjög með ölluháttalagi sínu í þessu viðtali.  Benti ég honum á að ég hefði nokkrum dögum áður borgað inn á skuldina 70 þúsund og fannst honum það ekki skipta neinu máli.  Þessu viðtali lauk síðan með orðum hans sem voru:  „Við höfum engan áhuga á að semja neitt við þig og erum að fara með þig í nauðungarsölu“.

Í framhaldi var Kaupþingi boðin greiðsla upp á 145 þúsund upp í þau 180-190 þúsund sem þetta er komið í núna.  Svarið var þvert nei, það er ekki nóg. Kaupþing auglýsti lögheimili mitt og sonar míns í lögbirtingarblaðinu þann 22. janúar og þannig er staðan í dag.

Ég íhuga að setja lyklana af íbúðinni í póstkassann og að flytja á Austurvöll og vernda barnið mitt þar eftir þessar mildu innheimtuaðgerðir ríkisbankans Kaupþings.

Virðingarfyllst þann 24.1.2009,
Sigurður Hólmar Karlsson


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum