Verkefni stjórnar

Hvað á að rannsaka
í Rannsóknarskýrslu heimilanna?

Hagsmunasamtökin hafa tekið saman lista um það sem augljóslega þarf að rannsaka, en það er ekki þar með sagt að þessi listi sé tæmandi. Hitt er ljóst að nauðsynlegt er að skipa þarf rannsóknarnefnd til að rannsaka afleiðingar bankahrunsins á heimilin.


Meðal þess sem þarf að rannsaka:


Stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna til þeirra

Afhending stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna

Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa

Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu?

Hversu margar þeirra voru hraktar út á vonlausan leigumarkað?

Hver væri staða húsnæðismála núna ef þetta hefði ekki verið gert?

Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa

Ólöglegar vörslusviptingar heimilisbíla og ökutækja einstaklinga

Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtaka þeirraAð auki má nefna:


Málsmeðferð við nauðungarsölur, gjaldþrotaskipti og endurskipulagningu skulda heimilanna

Við framkvæmd slíkra aðgerða er ekki gætt að lögboðnum réttindum neytenda

Mannréttindi á borð við réttláta málsmeðferð og eignarrétt eru fótum troðin

Endurskoða þarf lög á þessu sviði með hliðsjón af mannréttindum og EES-rétti


Starfsemi umboðsmanns skuldara, greiðsluaðlögun, aðstoð vegna gjaldþrotaskipta o.fl.:
 
Rannsaka þarf afdrif þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunar (sbr. framangreint)

Ljúka þarf endurskoðun laganna um greiðsluaðlögun o.fl. sem þessu tengjast

Umboðsmaður skuldara er ekki umboðsmaður skuldara, heitið er villandi

Hefur engar valdheimildir til að gegna slíku hlutverki í raun og veru

Lögboðnar reglur um starfsemina hafa heldur aldrei verið settar

Allt of ströng skilyrði fyrir aðstoð vegna gjaldþrotaskipta þarf að endurskoða

Óviðunandi að synjun um greiðsluaðlögun útiloki gjaldþrotaskiptiSkortur á samráði við neytendur og einhliða samráð við fjármálafyrirtæki: 

Áberandi hve greiðan aðgang fjármálafyrirtæki hafa að opinberu samráði

Það sama á því miður ekki við um neytendur og samtök þeirra

Fjármálafyrirtæki fengu að hafa einhliða samráð um úrvinnslu gengislána

HH börðust fyrir aðkomu að því en höfðu ekki erindi sem erfiði

Fjármálafyrirtæki hafa átt fulltrúa í fjölmörgum opinberum starfshópum

Lýsandi dæmi er samning frumvarps um fasteignalán til neytenda en neytendur áttu engan fulltrúa í þeim hópi sem samdi frumvarpið

Annað lýsandi dæmi má finna í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn - Þingskjal 820, 386. mál, 144. löggjafarþing - Samtök fjármálafyrirtækja:
28 - neytendur: 0Ólöglegt framferði, jafnt fjármálafyrirtækja sem og opinberra aðila þ.m.t. dómstóla

Skortur á réttarúrræðum fyrir neytendur og takmarkað aðgengi að þeim

Málaferli fyrir dómstólum aðeins á færi útvalinna vegna kostnaðar

Aðgengi langflestra að dómskerfinu er ekkert, af sömu ástæðum

Hvað á til bragðs að taka þegar dómstólar fara svo ekki eftir lögum?

Lágmarkskrafa að hið opinbera framfylgi í það minnsta gildandi lögum!

Væri það gert þyrftu neytendur ekki að standa í málaferlum

Ein af frumskyldum þróaðra réttarríkja gagnvart borgurunum

Hvernig voru lög brotin á lánþegum?

Þetta er grundvallarspurning og henni verður svarað í nokkrum liðum.

1. Veiting gengistryggðra lána:
Veiting gengistryggðra lána var ólögleg. Um það er ekki deilt og það er einnig ljóst að bankamenn vissu það allann tímann sem boðið var upp á þessi lán. Það er einnig ljóst að ýmsir embættismenn, t.d. innan Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og ráðuneyta, ásamt mörgum alþingismönnum og ráðherrum, vissu að veiting þessara lána var bönnuð með lögum nr. 38 frá 2001.

Þrátt fyrir að um brot á lögum væri að ræða og að vitneskja “kerfisins” væri jafn víðtæk og raun ber vitni, voru þau veitt svo árum skipti.

Einu “aðilar málsins” sem ekki vissu að um lögbrot voru að ræða, voru lántakendur, fórnarlömb glæpsins, og þeir eru líka þeir einu sem hafa þurft að sæta refsingu fyrir hann. Á sama tíma hafa aðilarnir sem frömdu brotið hagnast verulega á lögbroti sínu.

Fyrsta lögbrotið var því veiting gengistryggðra lána.

2. Neytendaréttur:
Lög um neytenda og samningsrétt eru mjög skýr. Lögin sem brotin voru í dómum Hæstaréttar og svo í setningu hinna svokölluð Árna Páls laga, eru viðbætur við íslensk lög úr Evrópurétti og þessar greinar er að finna í 36. gr. laga númer 7/1936, einkum í þriðju málsgrein 36. gr. c.

Samkvæmt neytendarétti er í fyrsta lagi bannað að breyta samningi eftir undirritun neytanda í óhag og í öðru lagi er kveðið á um að sé eitthvert ákvæði samnings dæmt ólögmætt, skuli fella það ákvæði á brott en samningurinn standa óbreyttur að öðru leiti. Ekki er leyfilegt að setja inn í samninginn annað ákvæði í stað þess ólöglega.

Bæði þessi ákvæði voru brotin.

1. #1 Ekki er leyfilegt að setja inn nýtt ákvæði í stað þess sem dæmt er ólöglegt:
Þegar gengistryggingin var dæmd ólögleg átti hún að falla út og samningurinn standa óbreyttur að öðru leiti. Það var eina löglega leiðin sem í boði var.

Dómstólar ákváðu hins vegar að hunsa lög um neytendarétt algjörlega og kveða á um að endurreikna ætti lánin afturvirkt með svokölluð seðlabankavöxtum, í viðleitni sinni til að tryggja að lögrot bankanna kæmi ekki niður á þeim sjálfum, heldur fórnarlömbum glæpsins.

Til að þetta gæti gengið upp og hægt væri að vísa í einhver lög þessu til stuðnings, fór Hæstiréttur í stórkostlega leikfimiæfingar með 3. og 18. grein vaxtalaga.

Í 18. grein vaxtalag er kveðið á um að ef fyrir handvömm, gleymist að setja umsamda vexti í samning, skuli miða við lægstu Seðlabankavexti. Þarna er forsendan sú að engir samningar séu fyrir hendi í samningum. Sú forsenda var ekki fyrir hendi því vextir voru skýrt skilgreindir í öllum þessum samningum.

Hæstiréttur varð því að fara krókaleiðir og kvað upp úr með að þar sem ólöglega gengistryggingin og löglegu vextirnir væru “tengd órjúfanlegum böndum” mætti láta eins og vextirnir væru ekki til og setja beita fyrrnefndum vaxtalögum til að setja Seðlabankavexti á lánin.

Þessi “órjúfanlegu tengsl” standast enda skoðun og eiga sér enga lagastoð, auk þess sem svona útúrsnúningar og þykjustuleikir eiga að vera langt fyrir neðan virðingu Hæstaréttar.

Það er nákvæmlega þarna sem dómstólar gerðu sig í raun óhæfa til að dæma í nokkrum málum sem snúa að málefnum neytenda og/eða eftirmálum hrunsins.

Veik staða neytenda gagnvart dómstólum verður augljós þegar til þess er litið að frá hruni hafa hundruðir og jafnvel þúsundir mála komið til kasta dómastóla þar sem reynir á lög um neytendarétt í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Fjöldi slíkra mála þar sem dæmt hefur verið samkvæmt neytendarétti er 1.

2. #2 Bannað er að breyta samningi eftir undirritun neytenda í óhag.
Þetta ákvæði var augljóslega brotið. Allir neytendur sem tóku gengistryggð lán komu ver út en þeir áttu að koma, jafnvel þó þeir hafi “sloppið vel” og séu nokkuð sáttir.

Svo eru það þeir sem fengu afturvirka Seðlabankavexti á sig af fullum þunga, vexti sem fóru upp í 21%, í þeim hópi eru margir sem misst hafa heimili sín.

“Brot” þessara einstaklinga eru þau að hafa “látið blekkjast” af aðilum sem það átti að geta treyst og tekið ólögleg lán. Þetta fólk er í raun fórnarlömb fjármálaglæps. Síðan var gráu bætt ofan á svart af dómstólum og síðar Alþingi, til að tryggja að það þyrfti að borga lögbrjótunum aleigu sína fyrir að hafa látið blekkjast af þeim í upphafi.

Ef við lítum framhjá öllum lögum og dómum og setjum upp einfalt dæmi til skýringar, þá gæti það litið svona út:

“Þú” tekur 3 milljónir að láni til að kaupa bíl. Það skiptir engu máli hvort lánið er 10%, 50% eða 100% af kaupverði bílsins, lánið er 3 milljónir. Þú borgar af því 15.000 á mánuði í rúmlega ár. Allt í einu kemur til þín greiðsluseðill upp á 45.000 fyrir einn mánuð og þegar þú skoðar seðilinn sérðu að höfuðstóll lánsins er 4,5 milljónir, eða 50% hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Þú er ekki sátt/u rog leita skýringa hjá bankanum. Svarið sem þú færð er: Við klúðruðum málum aðeins hérna hjá okkur og erum í smá vanda svo Ríkið gaf okkur leyfi til að breyta lánum eins og þínu með þessum hætti.

Værir “þú” sátt/ur við þessi svör? Eða myndirðu mótmæla og leita réttar þíns?

Þetta er það sem gerðist, nema bara á miklu stærri og alvarlegri skala!

Stjórnarskráin og Mannréttindasáttmáli Evrópu

Fjölmörg ákvæði Stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu hafa verið brotin gagnvart lántakendum/neytendum á Íslandi frá hruni, þar má nefna:

Í Stjórnarskránni:
* 72. grein: Ákvæði um eignarrétt
* 69. grein: Ákvæði um refsingu og sekt
* 65. grein: Ákvæði um jafnræði
Í Mannréttindasáttmála Evrópu:
* 6. grein: Réttur til réttlátrar dómsmeðferðar fyrir dómi
* 7. grein: Engin refsing án laga
* 4. grein: Bann við þrældómi og nauðungarvinnu
* 8. grein: Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu

3. Ákvæði um eignarrétt:
72. gr Stjórnaskrárinnar segir:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Fyrir þá „sök“ að hafa tekið fasteignalán er verið að svipta okkur eignum okkar og lífsstarfi. Engin „almenningsþörf“ var fyrir hendi og þó bankarnir geti aldrei fallið undir „almenning“ er rétt að taka fram að samkvæmt yfirlýsingu frá þeim þurftu þeir ekki heldur á þessari eignasviptingu að halda.

Engin „lagafyrirmæli“ komu um eignasviptingu. Lögin sem eignasviptingin byggir á voru sett í nafni þess að verið væri að „hjálpa“ lánþegum.
Í stað þess að „fullt verð“ komi fyrir, erum við svipt öllu.

Einnig er rétt að minna á að Stjórnarskráin er skrifuð til að verja venjulegt fólk og eignir þeirra fyrir yfirgangi ríkisins og fjársterkra aðila en ekki öfugt. Fjárfestar eru eðli málsins samkvæmt að taka áhættu. Það á ekki að vera “áhættufjárfesting” fyrir venjulegt fólk að taka fasteignalán.

Einnig er rétt að minna á að með aðgerðum ríkisins voru eignir fjárfesta ekki bara “varðar” heldur hreinlega stórauknar, þrátt fyrir lögbrotin.

4. Ákvæði um refsingu og sekt:
69. gr Stjórnaskrárinnar segir:
“Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað. “

Þó ekki sé verið að dæma í fangelsi í bókstaflegri merkingu þess orðs, er klárlega verið að refsa þeim sem tóku gengistryggð fasteignalán fyrir … já, fyrir hvað?

Refsiramminn á Íslandi er 16 ár fyrir hrottaleg morð og jafnvel þá áttu kost á reynslulausn eftir helming tímans. Þessir lántakendur hafa margir verið í „fangelsi“ þessara mála í frá hruni, vegna afbrota bankana.

Hvernig geta viðurlög við því að hafa tekið lán sem “löglegar“ bankastofnanir buðu í þúsundatali, réttlætt slíka refsingu?

Nánar er fjallað um þetta í kaflanum “Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi” um 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Ákvæði um Jafnræði
65. gr Stjórnaskrárinnar segir:
“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Annars vegar snúast þessi brot að mismunun á milli lánþega en hins vegar að jafnræði milli aðila, þ.e. banka/ríkis annars vegar og venjulegs lánþega hinsvegar.

3. #1 Mismunun milli lánþega:
Það er morgunljóst að lánþegar sitja ekki allir við sama borð. Það hvaða borð þú situr við virðist aðallega ráðast af tvennu; fjármunum og/eða tengslum.
Það hefur stungið í augun að sjá hundruðir milljóna og jafnvel milljarða tugi afskrifaða hjá þeim sem annað hvort eru vel tengdir og/eða eiga mikla fjármuni og stingurinn minnkar ekki þegar það er skoðað hverjir þetta eru, því oftar en ekki er þetta nákvæmlega sama fólkið og lék sér að peningunum „okkar“ og fékk milljarða að láni sem síðan hefur ekki fundist tangur né tetur af. Fólkið sem spilaði þannig stóra rullu í falli íslensku bankanna og hruni efnahagskerfisins. Þetta fólk er meðhöndlað með silkihönskum og skilningi og þrátt fyrir að lítið sem ekkert hafi fengist upp í kröfur virðist það eiga gnótt fjármagns og er margt að sækja í sig veðrið í íslensku viðskiptlífi og stendur jafnvel í fjárfestingum upp á tugi og hundruðir milljóna.

4. #2 Mismunun milli aðila
Það er ójafn leikur þegar einstaklingur berst við banka sem hefur ekki bara allt „kerfið“ á bakvið sig heldur líka allt fjármagnið.
Bankarnir eru einnig með her lögfræðinga á meðan lánþegar eiga í erfiðleikum með að finna lögmann sem þeir þora að treysta því ofurvald bankana er svo mikið. Bankarnir hafa alltaf töglin og hagldirnar svo ekki sé minnst á þá staðreynd að dómstólar hafa tekið skýra afstöðu í þessum málum. Þeir eru í raun gerendur í málinum og ekki líklegir til að dæma gegn sjálfum sér.

Að auki hafa Samtök fjármálafyrirtækja hafa svo til óheftan aðgang að fulltrúum Ríkisins. Þau eru með fulltrúa í mörgum nefndum Alþingis sem fjalla um hluti eins og hvernig útfæra eigi lán heimilana eða hvernig stýra skuli húsnæðismarkaði svo dæmi séu tekin.

Jón Þór Ólafsson alþingismaður bar fram fyrirspurn til fjármálaráðherra árið 2014 um í hvaða nefndum á vegum þess fulltrúar SFF sætu annars vegar, og fulltrúar neytendatengdra samtaka hins vegar. Samkvæmt svarinu sem var birt í ársbyrjun 2015 áttu SFF 28 fulltrúa en neytendatengd samtök engan. Þetta hefur verið þannig frá hruni og hefur ekkert breyst.

6. Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi:
Í 6. gr Mannréttindasáttmála Evrópu segir:
1. Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns ... um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Sé skipan hans ákveðin með lögum. ...“
2. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.
3. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal eigi njóta minni réttar en hér greinir:
1. Hann fái án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.
2. Hann fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.
3. Hann fái að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skal hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
4. Hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.
5. Hann fái ókeypis aðstoð túlks ef hann skilur hvorki né talar mál það sem notað er fyrir dómi.

Við viljum byrja á því að vekja athygli á 2. lið 6. greinar:

„Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.“

„Sekt“ lántakenda hefur ekki verið sönnuð. Það er ekki hægt að sanna hana því hún er ekki fyrir hendi. Það eru bankar og fjármálastofnanir sem frömdu afbrotið sem verið er að láta lánþeganna taka refsinguna fyrir.

Samkvæmt þessum 2. lið 6. greinar á að reikna allann vafa sakborningi í vil og í öllum málum er vafinn allur hans megin.

Lántakendur hafa reyndar aldrei fengið að vera „sakborningar“, þeir voru meira að segja sviptir þeim „rétti“. Stjórnvöld tóku bara meðvitaða ákvörðun um að dæma þá til refsingar án þess að gefa þeim raunhæft tækifæri til að svara fyrir sekt sína og verja sig.
Þeim stendur reyndar til boða að sækja rétt sinn til dómstóla, en er það ekki „öfug röð“? Eru það ekki stjórnvöld sem eiga að sækja þá til saka fyrir brot sitt og færa sönnur á því að um refsivert brot sé að ræða?
Af ofangreindu leiðir að öll þau réttindi sem 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu kveður á um, hafa verið brotin á okkur.

7. Engin refsing án laga:
7. gr Mannréttindasáttmálans segir:
1. Engan skal telja sekan um afbrot hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi, sem hann er borinn, eigi varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti þá framin voru. Eigi má heldur dæma mann til þyngri refsingar en lög leyfðu þegar afbrotið var framið.
Það var ekki refsivert að taka gengistryggð lán þegar þau voru tekin. Það má því ekki dæma okkur til refsingar fyrir það samkvæmt þessu ákvæði.

Þær raddir hafa heyrst, og því miður haft vinninginn, að þar sem gengistryggð lán hafi verið ólöleg sé sök lánþega jöfn sök bankans. Hagsmunasamtökin mótmæla þeim skilningi eindregið, enda aðstöðumunur banka annars vegar og lánþega hins vegar, öllum augljós og greinilegur. Eftir því sem lánþegar best vissu voru bankar lögleg fyrirtæki sem lutu ströngum reglum og virku eftirliti og þó síðar hafi komið í ljós að svo var ekki, var lánþeganum/neytandanum ekki kunnugt um það. Auk þess hafa, og höfðu, bankarnir heilu lögfræðideildirnar á sínum snærum og ekki á færi lánþega að efast um lögmæti aðgerða þeirra. Enda hefur það lítið að segja, við erum mörg sem höfum nú árum saman bent á ólögmæti aðgerða bankanna og það breytir engu, þeir fara sínu fram.

Því er svo við að bæta að bankarnir áttu aðild að öllum lánunum og það er fráleitt að ætla að lánþeginn sem kom og tók lán nr. „5.247“ sé jafn sekur bankanum í þessum efnum.

En þrátt fyrir allt sem hér hefur verið talið upp hafa lánþegar einir verið látnir bera sökina og refsinguna.

„Eigi má heldur dæma mann til þyngri refsingar en lög leyfðu þegar afbrotið var framið. „

Það lá engin refsing við þessu „broti“ þegar lánin voru tekin! Auk þess er áhugavert að bera refsingu okkar saman við refsirammann á Íslandi. Fyrir að hafa tekið þessi lán skal lántakendum refsað með breyttum og mjög óhagstæðum lánskilmálum og þeir „hundeltir“ geti þeir ekki staðið í skilum og jafnvel sviptir öllum sínum eigum fyrir afbrot sem framið var gegn þeim!

Hvernig passar það við refsiramma landa þar sem sektir og bætur fyrir alvarleg brot eru almennt mjög lágar og menn ekki dæmdir til lengri fangavistar en 16 ára?

8. Bann við þrældómi og nauðungarvinnu:
4. gr Mannréttindasáttmálans segir:
1. Engum manni skal haldið í þrældómi eða þrælkun.
2. Eigi skal þess krafist af nokkrum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu.

Það er fjarri Hagsmunasamtökunum að vilja ýkja slæma stöðu fjölmargra lántakenda með því að bera hana saman við stöðu þræla víðsvegar í heiminum, eða gera lítið úr skelfingu mansals á nokkurn hátt. En engu að síður má bregða þessu ljósi upp, bæði vegna þess að sem vestrænt þjóðfélag þá berum við okkur ekki saman við lægstu samnefnara heimsins, auk þess sem „þrældómur“ og „ánauð“ getur verið með fleirum en einum hætti.

Þegar afborganir vegna (nauðugra) lánaskilmála eru orðnar svo verulega íþyngjandi að fólk getur ekki um frjálst höfuð strokið vegna þeirra, þá er búið að dæma það til ánauðar. Það er þá að vinna hörðum höndum fyrir bankann. Hvað er það annað en ánauð?

Það myndi engum manni detta í hug að taka lán á þeim forsendum sem “gengistryggðir” hafa þurft að sæta, á allt að því 21% vöxtum. Skilamálar og afborganir eru það íþyngjandi að lífsgæði fólks skerðast verulega við að reyna að standa undir þeim.
Þeir sem hafa neitað og mótmælt fá á sig svipuhögginn í formi hótana um aðfarir, með skráningum á vanskilalista, og að lokum með sviptingu eigna sinna á uppboði.

Á Íslandi eiga “íþyngjandi” lánaskilmálar því miður við um fleiri en þá sem lentu í lögbrotum banka og stjórnvalda eftir hrun, eins og t.d. þá sem tóku verðtryggð lán á “óheppilegum tíma”. Um það verður ekki fjallað í þessu samhengi, en barátta Hagsmunasamtakanna fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði snýst einnig um að bæta hag þeirra.

9. Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu:
8. gr Mannréttindasáttmálans segir:
1. Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.
2. Opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Heimili okkar njóta ekki friðhelgi. Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur misst heimili sín, eða nær 60.000 einstaklingar. Erfitt er að ímynda sér stærra brot á “friðhelgi einkalífsins” en að vera rekin af heimili sínu.

Þessi gríðarlega röskun á friðhelgi einkalífs tugþúsunda, er ekki vegna „almannaheilla“, hún stafar ekki af neinni „nauðsyn“ og þaðan af síður er hún vegna „efnalegrar farsældar þjóðarinnar“.

Þessi röskun hefur ekki verið til að „firra glundroða“ heldur hefur hún búið hann til, hún hefur ýtt undir og varið „glæpi“ þeirra sterkustu í þjóðfélaginu, hún hefur alls ekki verið til „verndar heilsu manna“ því margir hafa misst heilsu og jafnvel líf undir þessu mikla álagi auk þess sem þessi barátta hefur svipt fólk „réttindum og frelsi“.

“15.000 fjölskyldur misst heimili sín”. Hvernig er hægt að fullyrða það?

Hagsmunasamtökin höfðu lengi haldið því fram að a.m.k. 10.000 fjölskyldur hefðu misst heimili sín frá hruni og hafði sá málflutningur HH ítrekað verið véfengdur og enn oftar hunsaður af yfirvöldum. En í ágúst 2018 var hann opinberlega staðfestur í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafs Ísleifssonar um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti.

Í svari dómsmálaráðherra kom fram að á liðnum tíu árum þurftu alls 8.846 einstaklingar að gangast undir nauðungarsölur og 3.973 einstaklingar fóru í gegnum gjaldþrotaskipti. Að auki hafði áður komið fram í svari félagsmálaráðherra í júní síðastliðnum að 349 fasteignir skuldara hefðu verið seldar til kröfuhafa í tengslum við greiðsluaðlögun.

Á þessum tíma voru því staðfest alls 9.195 tilvik um nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar á tíu ára tímabili eða að jafnaði um 920 á ári og ljóst að heildarfjöld nauðungarsalna yrði kominn yfir 10.000 í lok ársins 2018.

En tölur um uppboð, þó þær séu nógu slæmar, segja því miður ekki alla söguna. Hagsmunsasamtökin vita að fjármálafyrirtæki leysa einnig til sín heimili með öðrum hætti samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, eins og t.d. vegna gjaldþrotaskipta, nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar.

Í svari dómsmálaráðherra kom fram að engar tölur eru til yfir fjölda þessara heimila. Einnig kom fram í svari fjármálaráðherra í júní síðastliðnum að engar slíkar tölur lægju fyrir varðandi sértæka skuldaaðlögun einstaklinga.

Að mati Hagsmunasamtakanna er algjörlega óviðunandi að engar tæmandi opinberar upplýsingar liggi fyrir um fjölda þessara heimila. Þær tölur vantar því í sundurliðun á fjölda þeirra sem hafa misst heimili sín frá hruni. Þar sem fólk leitar yfirleitt allra leiða til að forðast nauðungarsöluferli, er varlegt er að áætla að þar sé a.m.k. um jafn mörg heimili að ræða og þau sem voru seld nauðungarsölu.

Það er því varlegt að áætla að heimilin sem hafa verið afhent fjármálafyrirtækjum á silfurfati séu á bilinu 15-20.000.

Til að fá þessar tölur staðfestar þarf að gera Rannsóknarskýrslu heimilanna, en nýlegar tölur frá Dómsmálaráðaneytinu um að eignir sem hafa verið þinglýstar á bankana á árunum frá hruni, séu nær 30.000, styðja þessar ályktanir og mat Hagsmunasamtakanna.

Til að setja þennan fjölda, 15.000 heimili, í samhengi eru heimili landsins u.þ.b. 140.000 en í Kópavogi búa 36.000 manns þannig að þar eru heimili í mesta lagi 17.000. Þetta eru 11 – 14,5% heimila landsins eða líkt og Kópavogur hefði verið þurrkaður út og jafnvel hálfur Garðabær líka!“

173.000 fjárnám; Hvaðan kemur sú tala?

Í svari dómsmálaráðherra frá ágúst 2018 um fjölda nauðungarsalna og fjárnáma kom fram að heildarfjöldi fjárnáma frá hruni hefði verið 151.598 og að þar af hefðu 116.939 verið árangurslaus.

Vorið 2019 bættust við tölur fyrir árið 2018 og þá var heildarfjöldi þeirra orðinn um 173.000 og þau árangurslausu um 135.000.

Þetta eru athyglisverðar tölur sem segja hræðilegar sögur og aukningin á fjárnámum milli ára sýnir að “við” erum hvergi nærri búin að súpa seyðið af hruninu og “aðgerðum” stjórnvalda og að bankarnir eru enn að.

Einnig er rétt að hafa í huga réttleysi þeirra sem lent hafa í árangurslausu fjárnámi. Árangurslausu fjárnámi er hægt að viðhalda svo árum og áratugum skiptir og á meðan á því stendur er einstaklingurinn svo til réttlaus í íslensku samfélagi; hann getur ekki verið með kreditkost, ekki tekið lán, á erfitt með að leigja húsnæði. Í stuttu máli eru honum allar (löglegar) bjargir bannaðar.

Margir þessara einstaklinga hafa flúið land á meðan aðrir reyna að þrauka á Íslandi í “svörtu hagkerfi”.

Það er eitt helsta baráttumál Hagsmunasamtakanna að fyrningartími árangurslauss fjárnáms sé tvö á eins og hjá þeim sem hafa orðið gjaldþrota. Vonir standa til að lagt verði fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi (2019- 2020).
Ekki eru til tölur um fjölda þeirra einstaklinga sem eru á bakvið þessi 173.000 árangurslausu fjárnám, en líklega eru þeir ekki færri en 30.000.

Réttur kröfuhafa til að fá “sitt”

Réttur kröfuhafa hefur verið stjórnvöldum mjög hugleikinn og iðulega er vitnað í “Stjórnarskrárvarinn eignarétt” þeirra. Þó kröfuhafar eigi vissulega sinn rétt, þá hafa Hagsmunasamtökin hafa ýmislegt við þennann málflutning og áherslur stjórnvalda að athuga m.a. af eftirtöldum ástæðum:

* Eignaréttur almennings er varin í stjórnarskránni en ekki eignaréttur banka.

* Kröfuhafar/fjárfestar/vogunarsjóðir eru fagfjárfestar. Eðli þeirra er að taka áhættu með fé og fjárfestingar og stundum hagnast þeir en á öðrum tímum tapa þeir. Almenningur er hins vegar ekki í áhættufjárfestingum. Venjulegt fólk sem fór illa út úr hruninu var í aðalatriðum að kaupa sér fasteign til að búa í. Það var ekki að leita eftir hagnaði, það var að búa sér heimili. Það að kaupa fasteign á aldrei að vera áhættufjárfesting. Það að fjárfesta í hlutabréfum eða lánasöfnum felur hins vegar í sér áhættu sem fagfjárfestum á að vera fullkunnugt um.
Það stenst því enga skoðun að bjarga áhættufjárfestinum en fórna “leikmanninum”.

* Stjórnarskráin var skrifuð til að verja réttindi almennings gegn ofurvaldi ríkis og eða fjársterkra fyrirtækja. Stjórnarskráin var ekki skrifuð fyrir banka og vogunarsjóði. Hún var skrifuð til að verja almenning þannig að spillt stjórnvöld og/eða fjársterkir aðilar eins og banker, gætu ekki látið undan þeirri freistingu að velta afleiðingum gerða sinna yfir á varnarlaust fólk.
Það er óhætt að segja að íslenska ríkið hafi fallið með afdrifaríkum hætti á prófinu sem það stóð frammi fyrir í kjölfar hrunsins.

* Það er ljóst að þegar bankarnir fengu nýjar kennitölur voru lánasöfnin færð yfir til þeirra á broti.

“Þið verðið að skilja að hér varð hrun”

Í næstum hvert einasta skipti sem við fjöllum um það sem gerðist eftir hrun og hvernig brotið var á heimilum landsins, er þetta sagt í einhverri mynd.

Því er til að svara að jú, við skiljum vel og vitum að hér varð hrun en það breytir ekki þeirri staðreynd að brotið var á réttindum einstaklinga með skelfilegum og víðtækum afleiðingum.

Auðvitað átti hrunið sér ekki stað í einhverju tómi og sofandaháttur og mistök stjórnvalda á árunum fyrir hrun, auk afdrifaríkra “mistaka” við sölu bankana, ollu því að svo fór sem fór.

En aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, hefðu getað verið með allt öðrum hætti.

Í fyrsta lagi er ALDREI leyfilegt að brjóta lög og stjórnarskrárvarin réttindi

Ef við leyfum okkur að réttlæta aðgerðir sem gera það með rökunum “nauðsyn brýtur lög” er illa fokið í flest skjól.

Lög til verndar neytendum eru sett til að vernda þá fyrir þeirri freistingu stjórnvalda og/eða fjársterkra aðila til að velta afleiðingum eigin mistaka yfir á varnarlausan afleiðing. Það sama má segja um þau réttindi sem varin eru í Stjórnarskránni.

Það er óhætt að segja að stjórnvöld hafi kolfallið á því prófi sem þau stóðu frammi fyrir, því þau völdu auðveldustu leiðina, að þóknast fjársterkum (og frekum) kröfuhöfum með því að fórna varnarlausum heimilunum.

Það reynir almennt lítið á neytendarétt eða stjórnarskrárvarin eignarétt í “góðæri” þegar allt gengur öllum í hag. Nei, það reynir fyrst á hann þegar á móti blæs og þeir sem völdin hafa og yfir peningunum ráða, hafa spilað rassinn úr buxunum og þá skiptir máli að stjórnvöld standi á réttindum neytenda og verji almenning fyrir yfirgangi þeirra.

Það gerðu íslensk stjórnvöld ekki eftir hrun. Þvert á móti þá gengu þau í lið með fjármálafyrirtækjunum og litu á íslensk heimili sem “ásættanlegar fórnarkostnað” í “endurreisn” fjármálafyrirtækjanna.

A.m.k. 15.000 heimili liggja í valnum og þau eiga heimtingu á uppreist æru og leiðréttingu á sínum málum.

Það var engin nauðsyn á þessum aðgerðum stjórnvalda, en þó hún hefði verið fyrir hendi, þá hefðu þessar aðgerðir samt aldrei verið réttlætanlegar, því þær brjóta bæði lög- og stjórnarskrárvarin réttindi neytenda. Um það ætti ekki að þurfa að hafa fleiri orð.

Hvað áttu stjórnvöld að gera?

Stjórnvöld áttu að gæta réttar almennings og passa upp á að farið væri að lögum. Ef það hefði verið leiðarljós þeirra í þessari erfiðu vinnu, hefði margt farið öðruvísi.
Eitt af því sem hefði legið beinast við var að frysta öll lán miðað við stöðu þeirra í janúar 2008. Allir hefðu þá haldið áfram að borga og þjóðfélagið hefði bara “rúllað” áfram, án mikilla vandkvæða á meðan bankarnir hefðu farið í gegnum eigin tiltekt og nauðsynlega endurskoðun sinna mála, á meðan afborganir lána hefðu komið inn á sama hátt og fyrir hrun.

Auðvitað hefðu einhverjir lent í einhverjum vandræðum, en þau vandræði hefði þá ekki verið hægt að setja á herðar stjórnvalda.

Í stað þess þá voru mistök og glæfraskapur bankana látin koma með fullum þunga niður á heimilum landsins, sem ekkert höfðu til saka unnið en neyðst til að spila úr sínu í því umhverfi sem þeim var áskapað af bönkum og stjórnvöldum.

Allar leiðir hefðu verið betri en sú sem var farin gagnvart heimilum landsins.

Það má ekki persónugera þessar aðgerðir

Frægasta setningin eftir hrun var að ekki mæti “persónugera hrunið”. Með þessu tókst stjórnvöldum og bönkunum, með dyggri aðstoð fjölmiðla, að koma í veg fyrir að nokkur “sekur” væri nefndur á nafn, þetta var bara allt andlitslausum “stofnunum” að kenna.

Það er hins vegar staðreynd að “stofnun” gerir ekki neitt; “Banki” gerir ekki neitt, “Ráðuneyti” gerir ekki neitt og “Embætti” gerir ekki neitt.

Allt sem gert er, er gert af fólki. Það er fólk sem gerir og það er fólk sem ákveður, ekki stofnunin sem það vinnur í eða embættið sem það skipar, og margt af þessu fólki þáði (mjög) há láun í nafni þeirra miklu ábyrgðar sem það bar, sem reyndist svo engin þegar á reynir.

Það sama á við það sem gerðist eftir hrun. Það var fólk sem tók ákvörðun um það fórna heimilunum fyrir fjármálafyrirtækin og fylgdi því eftir með einbeittum hætti í gegnum allt stjórnkerfið. Það fólk á að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Að sjálfsögðu komu margir að og sumir þeirra hafa verið nefndir nafni opinberlega, enda gengdu þeir allir, og gegna jafnvel enn, háum emæbættum sem einhver ábyrgð hlýtur að fylgja.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa safnað að sér miklum upplýsingum um það sem gerðist eftir hrun, og að sama hátt og allar ár renna til Dýrafjarðar, þá virðast allir þræðir liggja til þv. fjármálaráðherra og núerandi forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar.

Sé hann hafður fyrir rangri sök, mun Rannsóknarskýrsla heimilanna væntanlega sýna fram á það í eitt skipti fyrir öll, en því miður er Steingrímur J. ekki stuðningsmaður þess a hún verði gerð.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn réði för

Á fundi sem haldinn var í Seðlabankanum 15. september 2018, þvertók Poul Thomsen, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að AGS hefði krafist þessara aðgerða gagnvart heimilum landsins. Fulltrúar Hagsmunasamtakanna mættu á fundinn og spurðu sérstaklega um þetta og svarið var að þessar aðgerðir væru algjörlega á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

“Þið viljið ekki borga skuldir ykkar”

Þetta er algeng ásökun á þau okkar sem hafa mótmælt. Því er til að svara að við viljum ekkert frekar en fá að borga skuldir okkar, en við erum ekki til í að borga bara einhverjar skuldir af lánum sem við höfum hvorki tekið, samþykkt né skrifað undir.

Hér er lítið tilbúið dæmi um það sem var gert. Tölur í því eru þó í réttu hlutfalli við húsnæðislán sem við höfum undir höndum.

------------------------------------------
“Þú” tekur 3 milljóna bílalán. Það fylgir ekki sögunni hvort lánið var fyrir !0%, 50% eða 100% af verði bílsins, enda skiptir það ekki máli, lánið var upp á 3 milljónir.
Þú borgar kr. 15.000 á mánuði í rúmlega ár. Þá færðu allt í einu greiðsluseðil upp á 45.000 fyrir einn mánuð. Þér bregður og þegar þú skoðar greiðsluseðilinn þá sérðu að höfuðstóll lánsins hefur hækkað um 50% og er orðin 4,5 milljónir auk þess sem vextir eru allt aðrir og hærri en það sem þú skrifaðir undir.
Þú hefur samband við bankann og þar er þér tjáð af elskulegum starfsmanni að bankinn hafi hagað sér með óvarlegum hætti og lent í smá vanda. Hann hafi því fengið heimildir hjá stjórnvöldum til að breyta sumum lánum með þessum hætti og þú verðir bara að sætta þig við það.
--------------------------------------------


Værir þú sáttur?

Ímyndaðu þér svo að það væri ekki “bara” bíllinn þinn undir, heldur allt þitt lífsstarf, sem þú hefðir lagt í heimili þitt. Því það er nákvæmlega þetta sem gert var við þúsundir sem síðan hafa misst allt sitt með “þessum” hætti í hendur fjármálafyrirtækjanna sem klúðruðu málum.

Auk þess er staðreyndin sú að EF þú borgar, til að bjarga því sem bjargað verður, þá er litið á það sem jafngidli undirskriftar og samþykkis á nýjum skilmálum. Þolendur hafa því fundið sig í því sem á ensku er kallað “Catch 22” og að allir kostir í stöðunni séu slæmir.

Það er bannað samkvæmt neytendarétti að breyta samningum eftir undirritun neytenda í óhag. Framhjá því verður ekki litið!

Kröfuhafar verða að fá sitt

Eitt af því sem þarf að leiða í ljós í Rannsóknarskýrslu heimilanna, er á hvað kröfuhafar/vogunarsjóðirnir/ “Nýju bankarnir”, fengu lánasöfn “gömlu bankana” á.

Það er staðfest í skýrslu frá fjármálaráðuneytinu að ekki fóru lánasöfnin til þeirra á meira en 50% af virði þeirra.

Það eru hins vegar sterkar lýkur á því að þeir hafi fengið þau á 10% eða jafnvel minna.

En hvort sem miðað er við 50%, 10%, eða 1% er ljóst að jafnvel þó farið hefði verið að lögum, þá hefðu kröfuhafarnir alltaf mátt vera sáttir við sinn hlut/hagnað.

Aðgerðir stjórnvalda hafa hins vegar tryggt þeim ofurhagnað á kostnað heimilana og það er ekki ásættanlegt.

Auk þess viljum við minna á að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar var skrifað til að verja hagsmuni almennings en ekki fjárfesta, sem eðli málsins samkvæmt taka áhættur í sínum fjárfestingum á meðan aldrei má líta á fasteignaskuldbindingar sem áhættufjárfestingu.

Lækkun skulda á kostnaða “gamla fólksins”

Þessu er oft haldið fram að aðrir eigi að borga skuldirnar fyrir okkur og þá er vinsælt að draga fram “gamla fólkið” sem fórnarlömb með vísan til hagsmuna þeirra af lífeyrisréttindum.

Svona málflutningur er varla svaraverður auk þess að lýsa mikilli vanþekkingu á bankastarfsemi og eðli hennar. Engin bein tengsl eru á milli lánveitinga til neytenda annars vegar og réttinda ellilífeyrisþega hins vegar. Jafnvel þó að lífeyrissjóðir fjármagni í einhverjum tilvikum húsnæðislán eru kröfur þeirra um veðsetningarhlutföll nógu strangar til að tryggja útlán þeirra eins vel og kostur er. Enn fremur hafa sjónarmið um gengistryggð lán engin tengsl við lífeyrissjóði því þeir veittu engin slík lán.

Hverju á Rannsóknarskýrsla heimilanna að skila?

Það eitt er víst að réttlæti næst aldrei fram nema brotið sé viðurkennt og brotið verður aldrei viðurkennt nema að undangenginn rannsókn.

Þegar 15.000 fjölskyldur hafa misst heimili sín og fjöldi fjárnáma samsvarar því að annar hver íslendingur hefði lent í fjárnámi, er augljóst að eitthvað hafi misfarist í því að “hreinsa” upp eftir hrunið – nema ætlunin hafi verið að hreinsa upp heimili landsins.

Rannsóknarskýrslu heimilanna er annars vegar ætlað að leiða í ljós hvernig staðið var að verki og hvernig það gat gerst að framkvæmdarvaldið, dómsvaldið og löggjafarvaldið tækju sig saman um að brjóta lög- og stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og/eða lántakenda, eða hafi a.m.k. látið það átölulaust, því einhvern veginn fóru þessar “lögleysur” í gegnum öll þessi “kerfi”.

Hins vegar er Rannsóknarskýrslu heimilanna ætlað að leiða í ljós hvernig heimilum landsins hafi í raun reitt af, sérstaklega þeim sem misstu heimili sín. Fjölmörgum spurningum þarf að svara eins og t.d. hvort staða þessara fjölskyldna hefði verið betri ef lögum hefði verið fylgt.

Inn í þetta koma svo yfirfærslur gömlu bankana til hinna svokölluðu “nýju banka”, stofnun Dróma, framganga bankanna gagnvart varnarlausu fólki o.s.frv. o.s.frv.

En síðast en ekki verðum við að koma í veg fyrir að svona hlutir endurtaki sig, t.d. í “næsta hruni”. Þeir muni endurtaka sig ef þeir eru ekki kallaðir fram í dagsljósið og opinberaðir, þannig að aldrei aftur muni íslenskur stjórnmálamaður voga sér að verja fjármálafyrirtækin með því að fórna fjölskyldum landsins.

Að öðru leiti er vísað í kaflann Hvað á rannsaka í Rannsóknarskýrslu heimilanna?

Allir geta leitað réttar síns fyrir dómstólum

Já þannig ætti það að vera, en áður en lengra er haldið verður að halda því til haga að í þessum málum er EKKERT jafnræði milli aðila. Annars vegar er þar einstaklingurinn sem er að reyna að verja rétt sinn og heimili, en hins vegar er þar bankinn með milljarða til ráðstöfunnar, heri lögfræðinga og, því miður, dómskerfið “í vasanum” auk þess að vera með sýslumenn og allan þunga “kerfisins” á bakvið sig. Þetta er frá upphafi mjög ójafn leikur.

Að auku er það því miður þannig að dómstólar tóku þátt í brotunum gegn heimilunum þegar þeir hunsuðu lög um neytenda- og samningsrétt í dómum sínum vegna gengistryggðu lánana árið 2010.

Eftir það er “erfitt” fyrir dómstólana að fara að kannast allt í einu við neytendarétt og dæma samkvæmt honum eins og þeir hafi allt í einu uppgötvað tilvist hans og þessara laga.

Það eru þekkt sannindi að lygi vefur upp á sig og það á svo sannarlega við í þessum málum. Dómstólar eru því miður “gerendur” í brotunum gegn heimilunum og lítil von um réttlæti frá þeim frekar en ef þolendur þyrftu að leita réttar síns hjá gerendum í öðrum málum.

Mörg hundruð mál þar sem reynt hefur á neytendarétt hafa komið til kasta dómstóla frá hruni. Tölurnar tala sínu máli, því aðeins í EITT skipti hafa dómstólar á Íslandi dæmt samkvæmt neytendarétti.

Eruð þið að halda því fram að dómstólar séu spilltir?

Fjölmargir dómar og dæmi um óforsvaranlega afgreiðslu mála, segja sína sögu. Við látum lesendum eftir að draga sínar ályktanir.

Hafa Hagsmunasamtökin sannanir fyrir fullyrðingum/ásökunum sínum?

Hagsmunasamtökin hafa starfað í rúm 10 ár. Á þessum árum hafa þau sankað að sér vitneskju sem fáir búa yfir.

Þessu verður að svara bæði játandi og neitandi:

Já við höfum sannanir fyrir fjölmörgu en nei, við höfum ekki sannanir fyrir alveg öllu.

Upplýsingar um þessi mál liggja ekki alltaf á lausu og ef Hagsmunasamtökin hefðu búið yfir þeirri vitneskju sem þau búa yfir í dag á upphafsdögum sínum, er hætt við að baráttan hefði verið háð á annan hátt og víst að henni hefði lokið löngu fyrr.

Samtökin hafa þurft að viða að sér hlutum í “púslið” á löngum tíma en hafa náð að búa til nokkuð heillega mynd, sem er algjörlega staðfest.

Þegar þannig er má auðveldlega “sjá hvernig “púslin” sem upp á vantar líta út og í sumum tilfellum höfum við þurft að gera það. Sé um skekkjur í þeim ályktunum okkar að ræða breyta þær ekki heildarmynd málanna.

Til að fá úr öllu þessu skorið þarf Rannsóknarskýrslu heimilanna þar sem allt verður dregið upp á borðið og opinberað.

Árna Páls lögin – Lög 151/2010

Hin svokölluðu Árna Páls lög, lög 151/2010 voru sett í miklum flýti þann 18. desember 2010. Áður höfðu mál varðandi gengislánin og það að setja Seðlabankavexti á lánin farið á methraða í gegnum dómstólana en með Árna Páls lögunum má segja að hringnum hafi verið lokað. Þarna var búið að #1 efna loforð Steingríms J. Sigfússonar við kröfuhafa/vogunarsjóðina, #2 setja einhverjar lagastoðir undir þegar fallinn dóm Hæstaréttar no. 471/2010 og #3 “loka lánþega inni í skjaldborginni” þannig að þeim væru allar bjargir bannaðar.

Það er ekki spurning að lög þessi brjóta gróflega gegn Evrópskum neytendarétti sem hefur verið leiddur í lög á Íslandi frá og með árinu 1994 og að Alþingi var stórkostlega blekkt við setningu þeirra.
________________


Sennilega var flestum ljóst sem þekktu til málanna að dóm Hæstaréttar skorti lagastoð og að við svo búið mátti ekki standa. Gylfi Magnússon var þá hættur störfum sem viðskiptaráðherra svo Árna Páli Árnasyni var att á foraðið.
Hér er rétt að komi fram að þegar þarna var komið höfðu viðskiptaráðherra, Við­skipta­ráðu­neytið og Seðlabanki Íslands í heilt ár setið á lögfræðiálitum sem tilgreindu að gengistryggingin væri ólögleg og höfðu þannig komið í veg fyrir að mikilvægar upplýsingar kæmu fram sem hefðu skipt marga lánþega gríðarlegu máli.
Fulltrúar banka og fjármálafyrirtækja fengu að hafa áhrif á lögin og áttu greiða leið að ráðherra. Hann lét hafa það eftir sér í viðtali að „hann hefði verið eins og fífl þarna með kröfuhafa öskrandi yfir sér.“ Einnig viðurkenndi hann í sama viðtali að skilja ekki útreikninga laganna.
Lagasetning þessi var kynnt fyrir þingheimi sem „lausn fyrir skuldara“ en ekkert getur verið fjarri sanni.
Meira en 40 greinagerðir/athugasemdir komu um frumvarpið og svo til allar þeirra vöruðu eindregið við lagasetningunni. Meðal greinagerðanna var álit frá Umboðsmanni skuldara (dags. 25.11.10) sem „leggst alfarið gegn“ frumvarpinu og segir að með lögunum verði brotið gróflega gegn neytendaréttinum og að „nokkur fjöldi neytenda og annarra skuldara muni þurfa að inna af hendi viðbótargreiðslur til lánveitenda sinna“ verði frumvarpið að lögum sem sé „skerðing eignaréttar. Í niðurlagi segir:
„Leiða má líkum að því að í því [frumvarpinu] felist ólögleg eignaupptaka, en ekki hefur verið sýnt fram á að almannahagsmunir krefjist þess að slík eignaupptaka fari fram. Því er hugsanlegt að höfuðstólshækkanir eða bakreikningar til einstaklinga feli í sér bótaskyld brot, ekki einungis gegn eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar, heldur einnig gegn skuld­bind­ing­um íslenska ríkisins að þjóðarrétti.“

Hvorki þessum athugasemdum né öðrum var efnislega svarað. Aðilar í þessum hópi hafa leitað eftir og beðið um lögfræðiálit sem hreki þessa niðurstöðu umboðsmanns skuldara hjá þeim ráðuneytum sem koma að þessu máli, en ekkert þeirra hefur getað framvísað því/þeim.
Dæmi um áhrif laganna á lántakendur voru einnig mjög villandi í gögnum þingsins. Í frum­varp­inu var tekið dæmi um lán upp á 1 milljón, og sagt að væru greiddar inn á það kr. 60.000 á ári yrðu eftirstöðvar þess 950.000. Þessi framsetningin er vægast sagt villandi og til þess gerð að blekkja þó ekki sé hægt að rengja þessa útreikninga. Í þessu dæmi er valið tímabil sem er bara staða „dagsins í dag“, þannig að inn í þennan útreikning koma t.d. hvorki bakreikningar aftur til lántökudags né 20 % Seðlabankavextir. Auk þess snýst dæmið um 3 mánuði af lánstíma, en flestir sem voru með þessi lán voru með húsnæðis- og bílalán sem voru bæði mun hærri og til margra ára eða áratuga.
Þrátt fyrir allar athugasemdir og varnaðarorð margra aðila, voru lögin samþykkt á Alþingi þann 18. desember 2010.

Er ekki heimska að taka lán í annarri mynt en þú þiggur laun í?

Það er ekki ákjósanlegt að taka lán í annarri mynt en þú færð borguð laun í, en lánaumhverfi á Íslandi er ekki “eðlilegt lánaumhverfi”. Það fær t.d. engin greidd verðtryggð laun, þannig að fram að hruni var engin neytandi í raun að taka lán í sömu mynt og hann fékk greidd laun í.

Verðtrygging á lánum til neytenda er eitt stærsta mein íslensks samfélags og þegar að annað bauðst, flúði fólk verðtrygginguna í stórum stíl, en það eitt og sér er stór áfellisdómur yfir verðtryggingunni og áhrifum hennar á hagkerfið og heimilin.

Auðvitað er aldrei hægt að alhæfa þegar rætt er um tugþúsundir lánþega, en flestir, sérstaklega þeir sem tóku fasteignalán, reiknuðu dæmið til enda. Þau gerðu ráð fyrir 30% - 40% sveiflum á gengi en sáu strax að þrátt fyrir það myndu þau koma betur út með verðtryggð lán auk þess sem þó að gengi sveiflist upp, þá fer það líka niður og þá myndu lánin líka gera það.

Það eina sem fólk var ekki að gera ráð fyrir var hrun auk þess sem enginn neytandi hafði minnsta grun um að lánin væru ólögleg.

Það er gríðarleg áhætta að taka verðtryggð lán því það er ekki nóg með að þau hækki vegna gengisbreytinga, heldur hækka þau ef það verður uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu. Það er engin leið til að verja sig fyrir þessum hækkunum og, þegar hækkun er einu sinni orðin, þá fer lánið aldrei aftur niður í það sem það var fyrir hækkun.

Það verður að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna!

Hvað með sölu bankanna?

Þegar við hjá Hagsmunasamtökunum ræða aðgerðir stjórnvalda eftir hrun og afleiðingar þeirra, er mörgum sem finnst við gera lítið úr því að hér VARÐ hrun og því sem leiddi TIL þess. Það er alls ekki rétt.

Slóðaháttur stjórnvalda fyrir hrun ásamt öllu því sem bankarnir gerðu er eitthvað sem við sem þjóð verðum að læra að og passa að endurtaki sig ekki. Þeir sem þar eiga þátt að málum bera mikla sök á því hvernig fór og Hagsmunasamtökin gera ekki lítið úr því á nokkurn hátt.

En að því sögðu, þá gerðust hlutir eftir hrun og þá voru ákvarðanir teknar sem engin ástæða var til að taka. Við teljum að það fari ekki á milli mála að það voru teknar meðvitaðar ákvarðanir um það hjá stjórnvöldum um að fórna hagsmunum heimilanna fyrir fjármálafyrirtækin.

Staðreyndirnar tala sínu máli. Að minnst kosti 15.000 fjölskyldur hafa misst heimili sín í hendur bankanna og 173.000 fjárnám hafa verið framkvæmd, þar af um 135.000 árangurslaus.

Heimili á Íslandi eru nú um 140.000 þannig að þetta eru 11% heimila landsins, tíunda hvert heimili.
Íslendingar eru núna um 360.000 þannig að þetta er eins og helmingur landsmanna hefði farið í gegnum fjárnám sé meðaltalsreglunni beitt. Auðvitað er það ekki þannig, en væntanlega eru ekki færri en 30.000 manns sem hafa farið í gegnum árangurslaust fjárnám.

Þessar tölur ganga ekki upp og sýna fram á með óyggjandi hætti að það hefur eitthvað misfarist með skelfilegum hætti í aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. En til að skoða hvað það var og læra af því þurfum við að fá Rannsóknarskýrslu heimilanna.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum